top of page

XY á skrítnum tímum

Eftir að mesti brattinn er nú í baksýnisspeglinum langar okkur að segja ykkur frá því hvernig við í CrossFit XY og okkar einstöku iðkendur tækluðu það krefjandi umhverfi sem myndaðist í kjölfar COVID19 heimsfaraldursins. Um leið og umræðan um faraldurinn kom upp hér á landi voru öll þrif stöðvarinnar hert og tekin fastari tökum ásamt því að teiknuð voru upp drög af því hvernig XY myndi bregðast við versnandi ástandi. Þann 16. mars var svo sett á fjöldatakmörkun í tíma stöðvarinnar. Salir voru afmarkaðir með merkingum á gólfi þar sem að 10 reitir voru í hverjum sal sem tryggði 2 metra fjarlægð milli iðkenda. Æfingar voru styttar í 45 mínútur í stað klukkustundar með 10 lausum plássum í hvern tíma.Æfingar hófust á hálftíma fresti sem tryggði lágmarks traffík inn og út úr húsinu samtímis. Allur okkar búnaður var svo sótthreinsaður af iðkendum í lok hverrar æfingar og starfsfólk XY fór reglulega yfir allan búnaðinn daglega. Ásamt (ó)hefðbundnum æfingum stöðvarinnar buðum við strax upp á dagleg heima WOD á innra kerfi XY í Wodify. Þar höfðu iðkendur sem voru í áhættuhóp eða þeir sem ekki treystu sér á æfingar tækifæri til að gera samskonar æfingar heima.

Þann 24. mars höfðu stjórnvöld tekið ákvörðun um lokun allra líkamsræktarstöðva. XY brást strax við og hóf fjarþjálfun með heimaæfingum og markmiðasetningu. Aðal markmið stöðvarinnar var að tryggja áframhaldandi vinnu fyrir þjálfara stöðvarinnar og þjónustu við iðkendur. Meðlimir XY höfðu þá tækifæri til að skrá sig í hópa sem síðan fengu þjálfara. Hver þjálfari sá um 20-25 manna hóp, hannaði daglegar æfingar og átti í nánum samskiptum við sinn hóp. Búnaði stöðvarinnar var síðan útdeilt til þeirra iðkenda sem vildu - ketilbjöllur, handlóð, sippubönd, stangir, lóð, þrektæki og boltar flæddu úr stöðinni þremur dögum fyrir lokun þar til að lítið sem ekkert varð eftir. Þetta veitti öllum tækifæri til að búa sér til litla æfingaaðstöðu heima fyrir. XY heimsótti svo iðkendur og þjálfara stöðvarinnar sem sýndu sína “heimarækt” og gerðar voru færslur á samfélagsmiðlum um hverja heimsókn.


Í 9 vikur gekk heimaprógram XY á þar til að fjöldatakmörkunum var hægt og rólega aflétt. Þegar ljóst var að litlir hópar mættu æfa saman á dreifðu svæði byrjuðum við að bjóða upp á útiæfingar. Á Vífilsstöðum, bílaplani XY og hjá Íþróttahúsinu Ásgarði í Garðabæ buðum við upp á 8 æfingar daglega á hvorum stað. Æfingarnar vöktu mikla ánægju hjá iðkendum sem greinilega söknuðu þess að æfa með öðrum fjölskyldumeðlimum XY. Veðrið hélst oftast gott en margar hetjur XY eiga hrós skilið fyrir það að hafa alltaf mætt, jafnvel í grenjandi rigningu.


Þann 25. maí opnuðum við svo aftur, en þá höfðu hurðar XY verið lokaðar í 62 daga. Með áframhaldandi fjöldatakmörkunum í einhvern tíma til viðbótar buðum við iðkendur aftur velkomna á æfingu. Gleðin sem átti sér stað er ólýsanleg og þakklætið mikið. Við viljum þakka meðlimum CrossFit XY innilega fyrir að sýna ótrúlega þolinmæði, samstöðu, skilning og virðingu fyrir þeim breytingum og ákvörðunum sem stöðin stóð frammi fyrir. Við erum einstaklega þakklát og heppin með ykkur. #teamcfxy

bottom of page