Pakksödd af Toblerone áti með lungun full af fersku fjallalofti koma Haraldur Holgeirsson og Hjördís Ósk Óskarsdóttir heim með enn eitt CrossFit stórmótið í reynslubankanum. Það var í maí sem að tvítuga undrabarnið Haraldur og reynsluboltinn Hjördís ákváðu að láta á reyna í vef-undankeppni mótsins Swiss Alpine Battle 2018 sem par. Þau gerðu gott betur en bara að komast inn á úrslitakeppni mótsins því þau höfnuðu í 10. sæti af 35 pörum fengu sæti á mótinu. Þrátt fyrir að eiga bæði í lítilvægum meiðslum að stríða hélt parið til Sviss þann 6. september til að keppa á þessu afar sterka móti.

"Mótið var haldið í svissnensku Ölpunum, eða í litlum bæ sem heitir Villars-sur-Ollon sem er í c.a 1.300m hæð. Upplifunin að vera á þessum stað var geggjuð! Aðstæður á mótinu voru alveg til fyrirmyndar, en keppnin var haldin inni í íþróttahúsi í bænum. Frábær aðstæða var fyrir keppendur, bæði keppnissvæðið sjálft, upphitunarsvæðið og hvíldarsvæðið fyrir keppendur." segir Hjördís. Sviss Alpine Battle er þekkt fyrir að vera mjög sterkt mót sem skartar yfirleitt vel þekktum nöfnum úr CrossFit heiminum. Meðal þekktustu keppenda í ár fyrir utan þau Hjördísi og Harald voru t.d. Patrick Velner (2. sæti á Heimsleikunum 2018), Björgvin Karl Guðmndsson (5. sæti á Heimsleikunum 2018), Laura Horvath (2. sæti á Heimsleikunum 2018) og Samantha Briggs (2. sæti á Heimsleikunum, 35-39 ára, 2018).

Heilt yfir gekk mótið vel fyrir þau Hjördísi og Harald, eða "Team Cougar and a Kid" eins og þau kusu að kalla sig. Á fyrsta keppnisdegi tóku þau einungis eitt WOD þar sem liðin syntu innanhúss og hjóluðu á Concept hjólum til skiptis (23. sæti). Á öðrum keppnisdegi, laugardeginum, tók parið 5 WOD allt í allt þar sem fyrsta æfing dagsins var ekki af verri endanum - fjallahlaup í Ölpunum (29. sæti). Seinni tvær æfingarnar voru svo tvískiptar þar sem XY parið tók 24./23. sæti í "Chippernum" og 23./25. sæti í lokaæfingu dagsins. Á lokadegi keppninar byrjuðu pörin á útsláttarkeppni í einskonar þrautabraut (24. sæti). Annað WOD dagsins var einnig það síðasta fyrir þau Hjördísi og Harald því eftir það kepptu einungis efstu 10. lið keppninnar. Þau ákvaðu þá að gefa vel í og tóku 15. sætið í WOD nr.6 "The Chess Piece".

"WODin gengu vel að mestu leiti. Haraldur var pínu meiddur í bakinu og ég að keppa í fyrsta skipti eftir hnémeiðsl þannig að aðalmarkmiðið var að koma heil út úr mótinu og njóta þess að vera þarna. Það sem ég tek frá þessu móti er hversu dýrmætt það er að vera á keppnisgólfinu aftur og að fá tækifæri til þess að ferðast til svona fallegra landa eins og Sviss til að keppa. Heilt yfir var upplifunin frábær! Við fengum að gera mjög fjölbreytt WOD í þessu fallega umhverfi sem er þarna, t.d fjallahlaup í Ölpunum (ekki það skemmtilegasta samt) og að fara í gegnum Obstacle Course" segir Hjördís að lokum.