top of page

Norðurlandamót Unglinga 2018


Frá vinstri: Ingimar, Rakel, Birta og Guðmundur.

Helgina 14.-15. október var Norðurlandamót Unglinga í Ólympískum Lyftingum haldið í Østerbro, Danmörku. Lyftingasamband Íslands sendi hvorki meira né minna en 15 manna sveit í flokki U20 og U17 sem keppti fyrir Íslands hönd. Í þeim hópi átti CrossFit XY 4 bráðefnilega fulltrúa sem öll stóðu sig gríðar vel á mótinu. Þetta eru þau Birta Hafþórsdóttir (f.1998), Ingimar Jónsson (f.1998), Rakel Jónsdóttir (f.1999) og Guðmundur Jökull Ármannsson (f.1998).


Árangur hópsins á mótinu var lygilega góður enda um einstaklinga sem tilheyra þeim bestu í sínum flokkum að ræða. Birta (-75kg flokkur) tók 1. sæti í sínum flokki og varð jafnframt efst í samanlagðri þyngd (80kg snörun/90kg jafnhending). Hún hlaut því titilinn Norðurlandameistari 2018. Ingimar (-77kg flokkur) tók 2. sæti í sínum flokki og setti jafnframt nýtt Íslandsmet Unglinga í snörun (107 kg snörun/131kg jafnhending). Rakel (-58kg flokkur) átti stórkostlegt mót þar sem hún landaði 1. sæti í sínum þyngdarflokki (65kg snörun/80kg jafnhending) ásamt því að setja nýtt Íslandsmet í flokki U20 í jafnhendingu. Guðmundur Jökull (-94kg flokkur) endaði í 3. sæti í sínum flokki með frábærum lyftum (95kg snörun/115kg jafnhending).


Við tókum púlsinn á hópinum áður en þau héldu til Danmerkur þar sem þau sögðu okkur örlítið frá ferlinu, hvernig þau fóru frá því að prófa þessa krefjandi en skemmtilegu íþrótt í að keppa undir Íslands fána á Norðurlandamóti og hvert þau stefna með Ólympískar Lyftingar.

"Ég byrjaði í CrossFit í lok árs 2014 eftir að hafa verið í fimleikum frá því að ég var lítil. Ég kynnist Oly (Ólýmpískum Lyftingum) í gegnum CrossFitið en leit þannig séð ekkert á það sem sér íþrótt til að byrja með. Ég byrjaði í Kvennó (Kvennaskóla Reykjavíkur) árið 2014 og reyndi þar að fá CrossFit metið í stað þess að mæta í íþróttatíma skólans. Það var heldur betur ekki í boði þar sem að íþróttakennarinn minn tilkynnti mér að CrossFit væri ekki íþrótt í hennar huga. Ég ákvað þá að keppa á Íslandsmótinu í Ólympískum Lyftingum og fékk þannig tímana metna. Þegar ég mætti á mótið, sem var mitt fyrsta mót, vissi ég voða lítið hvað ég var að fara út í. Ég hafði ekki einusinni kynnt mér fjölda tilrauna en það fór engu að síður allt vel og ég hef ekki stoppað síðan! Ég ákvað að reyna að keppa á NM í lok sumars þar sem ég hafði nú þegar náð lágmarkinu inn á mótið. Ég byrjaði þar af leiðandi að leggja meiri áherslu á lyftingarnar með CrossFitinu. Ég keppti á Íslandsmóti Unglinga í byrjun september til að undirbúa mig þar sem ég hafði ekki keppt í Oly síðan á NM í fyrra vegna meiðsla í öxl. Íslandsmótið gekk mjög vel og ég er meira en tilbúin í slaginn. Stóra markmiðið fyrir mót er alltaf að enda á toppnum! En annars bara að hafa gaman, njóta þess að keppa og negla allar lyfturnar. Að lyfta er það skemmtilegasta sem ég geri! Ég hlakka til að fara á æfingar alla daga og er í sífelldri keppni við sjálfa mig þar sem ég reyni að ná mínum markmiðum og ná fram bætingum. Svo auðvitað að keppa við aðra, eins og á NM, þar er enn meiri hvati! Að hafa gaman af þessu er lykilatriði. Áherslan sem ég legg á Oly í minni rútínu er aðallega bara sú að æfa vel, muna að hlusta á líkamann og borða hollan og góðan mat!" segir Birta.

"Ég byrjaði að prófa mig áfram í Ólympískum Lyftingum stuttu eftir að ég byrjaði í framhaldsskóla. Vinir mínir stunduðu CrossFit svo þeir kenndu mér grunninn. Ég tók mína fyrstu snörun eflaust fyrir tæpum 4 árum síðan. Á þeim tíma æfði ég tennis, það er minn helsti bakgrunnur í íþróttum. Ég rétt náði landsliðslágmarkinu á Íslandsmótinu í ár þar sem ég hafði nauman sigur í -77kg flokki. Markmiðið mitt fyrir mótið (NM) er fyrst og fremst að mæta og gera mitt besta. Þetta er fyrsta mótið mitt í langan tíma svo það væri gaman að "bomba ekki út" (:ná ekki gildri lyftu og detta því úr keppni). Svo veit ég að Íslandsmetin í -77kg flokki eru nálægt mínu besta svo það væri gaman að reyna við þau. Mér finnst Ólympískar Lyftingar mjög áhugaverðar. Ég horfi stundum á myndbönd tengd íþróttinni og fylgist með nokkrum íslenskum og erlendum lyfturum. Megin áherslan mín er á CrossFit, þar sem ég fylgi CrossFit-sinnuðu prógrammi, en þar eru eru Ólympískar ca. 4x í viku. Það er samt alltaf lang skemmtilegast að sjá bætingar í lyftunum sínum!" segir Ingimar.


"Ég hef æft nánast allar íþróttir sem hægt er að æfa en lengst æfði ég tennis, eða í um 4 ár. Ég uppgötvaði CrossFit í gegnum tvo vini mína og einnig voru systur kærustunnar minnar að stunda það mikið. Það heillaði mig hversu vel fólkið sem stundaði CrossFit leit út og gat gert ótrúlega hluti. Ég byrjaði þá í CrossFit en eftir c.a. 6-8 vikur var ég eiginlega sjálfkrafa hættur að stunda CrossFitið sem slíkt heldur frekar farinn að lyfta, því mér fannst það miklu skemmtilegra og var strax farinn að sjá bætingar. Ég keppi síðan á mínu fyrsta móti í janúar 2017, Íslandsmótinu, og þrátt fyrir að ná bara 3 af 6 lyftum gildum lenti ég í 3. sæti í -77kg flokki. Það var í rauninni þá sem ég ákvað að stunda einungis Ólympískar Lyftingar og þar sem ástríðan mín fyrir sportinu kviknar. Núna reyni ég að æfa 5x í viku. Almennur styrkur hefur alltaf verið minn veikleiki þannig að ég legg mikla áherslu á styrktaræfingar eins og beygjur og "pull". Planið var að ná lágmarkinu fyrir NM á Sumarmótinu á Akureyri 2018 þar sem ég hafði þegar náð lágmarks "sinclair"-stigafjöldanum á æfingu. Mér tókst það ekki á því móti en ég hafði verið að glíma við meiðslí hné rétt fyrir mótið. Annars gekk undirbúningurinn vel að öllu öðru leiti. Síðasti sénsinn var þá Íslandsmót Unglinga þar sem ég náði lágmörkunum loksins (105kg snörun/119kg jafnhending). Markmiðið mitt fyrir NM er að ná 230kg "total" (samanlagðar þyngdir úr lyftum). Annars bara lyfta eins vel og ég get og safna reynslu! Oly eru orðnar mjög stór partur af mínu lífi. Yfirleitt reyni ég að skipuleggja daginn minn út frá því að ég nái örugglega að æfa." segir Guðmundur.


bottom of page