top of page

Haraldur Holgersson

Loksins þegar CrossFit keppnistímabilið fór af stað eftir dágóðan COVID dvala var ljóst að íslenskt keppnisfólk var meira en klárt í slaginn. Þann 11. mars hófst The Open, eða “Openið”, sem er CrossFit iðkendum vel kunnugt. Eftir 3 vikur af netkeppni var ljóst að fjölmargir Íslendingar komust áfram í næsta hluta undankeppni Heimsleikanna 2021. Sá hluti, Quarterfinals, gaf evrópskum keppendum 5 æfingar til að spreyta sig á yfir 4 daga tímabil og reyna að næla sér í eitt af 60 lausum plássum inn í undanúrslitin. Í undanúrslitakeppninni, Semifinals, sem fram fer rafrænt dagana 11. – 13. júní eigum við Íslendingar 7 keppendur. Einn af þeim er vissulega Haraldur Holgersson, þjálfari og fulltrúi CrossFit XY.


Við fengum Harald, eða Halla eins og hann er oftast kallaður, til að segja okkur aðeins frá undirbúningnum fyrir keppnistímabilið, The Open, Quarter- og Semifinals og að sjálfsögðu áformunum fyrir Heimsleikana sjálfa."Openið var svolítið öðruvísi sett upp í ár þar sem að 10% af hverri heimsálfu komst áfram, þannig að það var engin svakaleg áhersla lögð á það. Ég gerði öll WODin bara einusinni, nema eitt sem ég gerði tvisvar afþví að ég misskildi “standardinn” aðeins, og einbeitti mér frekar að því að halda bara áfram að æfa og svona. Mér gekk að vísu mun betur en ég bjóst við og endaði í 82. sæti í heiminum. Viku fyrir Quarter finals tognaði ég svo í kviðnum og fljótlega kom svo í ljós að ein æfingin innihélt 180 GHD kviðæfingar. Einhvernveginn náði ég að koma mér í gegnum þá æfingu og sömuleiðis rétt svo að tryggja mér sæti meðal 60 efstu í Evrópu og þar með inn í undanúrslitin.


Upphaflega hafði verið gefið út að “Semifinals: Lowland Throwdown” sem er haldið í Hollandi væri staðarkeppni og “Semifinals: German Throwdown” væri netkeppni. Ástandið í Hollandi var alls ekkert sérstakt um miðjan maí og ferðalag þangað hefði þýtt sóttkví fyrir og eftir keppni, þannig að ég ákvað að velja þýsku keppnina frekar. Að vísu var “Lowland” keppninni svo líka breytt í netkeppni og síðan dregið í hvorri keppninni maður myndi taka þátt í, þannig að það skipti svo bara engu máli.""Það er alveg ljóst að allir keppendurnir eru frekar sterkir og af því að keppnin verður haldin rafrænt að þá er svolítið óljóst hverjir eru “sterkir” keppendur fyrirfram. Ég reyni eiginlega að pæla sem minnst í því, held bara áfram að einbeita mér að mínum æfingum og að undirbúa mig eins vel og ég get. Þótt að þetta sé CrossFit að þá getur svona keppni alveg hallað á styrkleika manns eða veikleika og það þýðir ekkert að velta því mikið fyrir sér, þetta getur farið á alla vegu.


Ég kýs miklu frekar staðarkeppni en svona “online” fyrirkomulag. Aðallega vegna þess að í svona rafrænni keppni getur “standardinn” (reglur og kröfur fyrir hverja æfingu, upptöku og skil) ýmist verið ótrúlega strangur og mikið af smáatriðum sem gera mann svolítið stressaðan fyrir, eða hann er óljós og maður veit ekki hvort aðrir keppendur séu að reyna á reglurnar. Svo er það bara hversu mikil stemning myndast á keppnisgólfinu í staðarkeppnum, tilfinningin sem kemur í kjölfarið af því að hafa keppendur og áhorfendur í kringum sig og finna fyrir allri spennunni.


Þetta keppnis-, eða réttara sagt æfingatímabil, hefur verið svolítið strembið þar sem ég hef verið að glíma við slatta af meiðslum. COVID hefur líka gert það að verkum að ég hef þurft að æfa mikið einn, sem ég kýs ekkert frekar að gera. Í ljósi þess yrði það mikið afrek fyrir mig að komast inn á Games!"


Við óskum Halla alls hins besta í undanúrslitakeppninni þann 11. júní og hlökkum til að sjá þennan öfluga íþróttamann vonandi í Madison á Heimsleikunum í CrossFit seinna í sumar.

bottom of page