top of page

"Ef þú skallar vegg, þá skallar þú bara vegg."

Að prófa og æfa hinar ýmsu íþróttir á fyrstu tuttugu árum ævinnar, til dæmis ballet, fimleika, hestamennsku, fótbolta og svo CrossFit hljómar kannski ekkert svo stórbrotið. Að æfa allar þessar íþróttir eftir að hafa verið greind með annars stigs CP, eða Cerebral Palsy (lömunarveiki), og lifað með því frá 9 mánaða aldri er það hinsvegar. Björk Davíðsdóttir er 21 árs í dag en aðeins 6 mánaða gömul greindist hún með CP sem hefur áhrif á virkni og starfsemi vöðva á allri vinstri hlið, allt frá tám upp í heila. Eins og upphaf greinarinnar gaf til kynna hefur það ekki stoppað þennan vægast sagt magnaða meðlim CrossFit XY, þrátt fyrir að gera nánast öll hin daglegu verkefni meira krefjandi og erfiðari.

Frá unga aldri hefur Björk tamið sér einstakt hugafar sem er blanda af jákvæðni, þrjósku og auðmýkt. Hún var 3 ára gömul þegar hún spurði foreldra sína hvort hún mætti æfa ballett. Þrátt fyrir allt þá var það að sjálfsögðu ekkert mál, Björk fór að æfa ballett. Þetta markaði að einhverju leiti upphafið af möntrunni sem Björk lifir eftir enn þann dag í dag – “ef ég skalla vegg, þá bara skalla ég vegg”, eða með öðrum orðum “ég get allt þangað til annað kemur í ljós”. Síðan þá hefur Björk þurft að leggja hart að sér á öllum sviðum lífsins og að mörgu leiti harðar en flestir, því CP hefur jú áhrif á alla vöðva líkamans, þ.á.m heilann. Sjúkraþjálfun og umfram klukkustundir af lærdómi var hennar daglega rútína.

“Þegar ég var 16 ára útskrifaði sjúkraþjálfarinn minn mig og sagði mér að ég þyrfti ekkert að halda áfram að mæta frekar en ég vildi. Hún vissi að ég var algjörlega fær um að framkvæma allar æfingarnar mínar sjálf og að ég vissi mín mörk, að ég ætti að halda áfram að vera dugleg að hreyfa mig en á sama tíma að hlusta á líkamann, sem ég hef tekið með mér í alla hreyfingu sem ég hef stundað síðan.”

Eins og sjá má var Björk frá unga aldri ekki að fara að láta greininguna stoppa sig frá því að iðka hinar ýmsu íþróttir. Eftir að hafa prufað ballett um tíma staldraði hún stutt við í fimleikum. Hún fann fljótt að fimleikarnir voru ekki fyrir hana þannig að næst var það fótboltinn. Björk fann sig vel í fótboltanum enda vel kunnug íþróttinni þar sem að pabbi Bjarkar var fótboltaþjálfari í 14 ár. Hún byrjaði í 6. flokki FH og æfði af krafti þar til að hún flutti til Hornafjarðar 16 ára. Björk kunni virkilega vel við sig í fótboltanum og leið vel í því umhverfi. Samhliða öllum íþróttum sem Björk prófaði og æfði var hún mikið í hestamennsku – enda kemur hún af miklu hestafólki. Afar og ömmur Bjarkar voru dugleg að taka hana með í reiðtúra sem varð svo til þess að Björk fór að keppa á hestum yfir 3 ára tímabil. Þegar Björk flutti til Hafnar 17 ára fór lang mestur tími dagsins í lærdóm en inn á milli lagði hún mikið kapp á að hjóla um náttúru Hornafjarðar.

“Eftir að ég flutti frá Höfn heyrði stelpa sem ég hafði kynnst þar í mér. Hún hafði þá flutt í bæinn og byrjað að æfa CrossFit en vantaði einhvern til að koma með sér á æfingar. Ég var ekki alveg til í það því að ég hafði séð og fylgst með stelpunum, eins og t.d. Katrínu Tönju, Söru og fleiri, og fannst þetta mögulega vera aðeins of mikið fyrir mig. Ég fór svo að googla CrossFit aðeins betur og hugsaði “æj afhverju ekki bara..” og skráði mig á Grunnnámskeið árið 2017 hjá CrossFit Hafnafirði. Við æfðum þar saman í svona 4 mánuði þangað til að æfingatímarnir þá voru að henta hvorugri okkar. Vinkona mín spurði mig þá hvort við ættum ekki bara að finna okkur aðra stöð, hún hafði heyrt um eina í Garðabænum sem hana langaði til að prófa. Ég sló bara til og síðan þá höfum við æft non-stop.”

“Það sem ég hef kunnað hvað mest að meta við þjálfarahópinn í XY síðan að ég byrjaði er skilningurinn sem mér er sýndur hér. Ég var ekki vafin í bómul og mínar sérþarfir voru aldrei byrgði eða erfiði fyrir þjálfarana. Alltaf hefur verið komið með lausnir eða plan fyrir æfingar sem eru erfiðar fyrir mig í framkvæmd eða ég ekki treyst mér í. Það er ástæðan fyrir því að ég hef æft á fullu síðan ég byrjaði hér og aldrei lent á hindrun sem ekki er hægt að finna lausn á. Í dag æfi ég 6-7x á viku, stundum 2x á dag – en aðeins minna á sumrin.”

Hvatningin og peppið í XY er það sem drífur hana á æfingar í dag. Björk segir að það hafi tekið hana smá tíma að venjast nýjum stað og nýju umhverfi, sem hefur verið ákveðið mynstur frá því að hún var ung. Til að byrja með er hún mjög meðvituð um fólk í kringum sig, hvort það sé að fylgjast með sér og sjái að hún eigi erfiðara með sumar hreyfingar en flestir. Með tímanum verður þetta allt betra og í dag er fátt sem drífur hana meira áfram en að fá pepp, high-fivea og að upplifa samheldni þeirra sem æfa innan veggja CrossFit XY.

bottom of page