Aukinn áhugi á Ólympískum lyftingum

Við í CrossFit XY höfum á síðustu dögum verið að leggja lokahönd á breytt fyrirkomulag á krakka- og unglingatímum stöðvarinnar en aðallega á ólympísku lyftingatímunum. Við höfum fengið til liðs við okkur hann Arnór Gauta sem hefur verið að þjálfa og keppa í ólympískum lyftingum síðastliðin 5 ár. Saman munu Arnór Gauti og Birkir Örn, þjálfari og keppandi CrossFit XY stýra og leiða áfram nýtt fyrirkomulag tímanna.

Arnór er 21 ára gamall en hokinn reynslu. Hann kemur til okkar frá CrossFit Hafnafirði þar sem hann hefur æft og þjálfað síðustu ár. Hann er með CrossFit: Level 1 og CrossFit: Gymnastics réttindi ásamt því að hafa sótt ýmis námskeið tengd ólympískum lyftingum, t.d. Catalyst Athletics: Level 1 & 2. Keppnisferill Arnórs er engu síðri, enda er hann einn af fremstu og efnilegustu ólympísku lyftingarmönnum Íslands. Arnór hefur m.a. orðið Íslandsmeistari unglinga U17 og U20 ásamt því að hafna í 3. Sæti á Norðurlandamóti unglinga árið 2015.

Birkir Örn hefður núna þjálfað hjá CrossFit XY í eitt ár. Hann hefur bæði æft, keppt í og þjálfað CrossFit síðan árið 2014. Birkir býr að gríðarlegri keppnisreynslu í ólympískum lyftingum og CrossFit. Tvívegis hefur Birkir keppt á Reykjavik International Games (2018 og 2019), Norðurlandamóti unglinga (2018) og fjöldanum öllum af CrossFit mótum um allan heim. Með aukinni eftirspurn og gríðarlegum áhuga meðlima CrossFit XY, og eiginlega þjóðarinnar í heild sinni, á ólympískum lyftingum vildum við taka okkar lyftingaþjálfun á næsta stig.