top of page

Aukinn áhugi á Ólympískum lyftingum

Við í CrossFit XY höfum á síðustu dögum verið að leggja lokahönd á breytt fyrirkomulag á krakka- og unglingatímum stöðvarinnar en aðallega á ólympísku lyftingatímunum. Við höfum fengið til liðs við okkur hann Arnór Gauta sem hefur verið að þjálfa og keppa í ólympískum lyftingum síðastliðin 5 ár. Saman munu Arnór Gauti og Birkir Örn, þjálfari og keppandi CrossFit XY stýra og leiða áfram nýtt fyrirkomulag tímanna.

Arnór er 21 ára gamall en hokinn reynslu. Hann kemur til okkar frá CrossFit Hafnafirði þar sem hann hefur æft og þjálfað síðustu ár. Hann er með CrossFit: Level 1 og CrossFit: Gymnastics réttindi ásamt því að hafa sótt ýmis námskeið tengd ólympískum lyftingum, t.d. Catalyst Athletics: Level 1 & 2. Keppnisferill Arnórs er engu síðri, enda er hann einn af fremstu og efnilegustu ólympísku lyftingarmönnum Íslands. Arnór hefur m.a. orðið Íslandsmeistari unglinga U17 og U20 ásamt því að hafna í 3. Sæti á Norðurlandamóti unglinga árið 2015.

Birkir Örn hefður núna þjálfað hjá CrossFit XY í eitt ár. Hann hefur bæði æft, keppt í og þjálfað CrossFit síðan árið 2014. Birkir býr að gríðarlegri keppnisreynslu í ólympískum lyftingum og CrossFit. Tvívegis hefur Birkir keppt á Reykjavik International Games (2018 og 2019), Norðurlandamóti unglinga (2018) og fjöldanum öllum af CrossFit mótum um allan heim. Með aukinni eftirspurn og gríðarlegum áhuga meðlima CrossFit XY, og eiginlega þjóðarinnar í heild sinni, á ólympískum lyftingum vildum við taka okkar lyftingaþjálfun á næsta stig.


"Við viljum leggja aukna áherslu á grunnatriði lyftinga hjá okkur. Auka þekkingu fólks á ferlum ólympísku lyftanna (snörun og jafnhendingu) og stuðla að því að forgangsröðin verði rétt hjá sem flestum – sem er jú gæði framyfir þyngdir. Tímarnir verða með hefðbundnu sniði, þrjár æfingar á viku sem fara yfir snörun, jafnhendingu og styrktar- og aukaæfingar. Að auki munum við svo deila með iðkendum einni æfingu til viðbótar, sem fólk getur gert sjálft utan tíma."
"Við viljum nota alla okkar þekkingu og reynslu á sportinu í að búa til prógram sem hentar sem flestum. Hvort sem að fólk er að stíga sín fyrstu skref í að keppa í ólympískum lyftingum eða hreinlega að taka sínar fyrstu æfingar, þá mun þetta vera eitthvað sem allir geta gert og notið góðs af. Þeir sem eru lengra komnir fá meiri efnivið og fleiri æfingar, á meðan þeir sem eru að byrja fá gæðamikla grunnþekkingu á lyftingum.”
“Markmið okkar er svo að halda áfram að byggja upp þennan gríðarlega áhuga innan stöðvarinnar á lyftingum. Fyrst og fremst viljum við að gæðin hjá okkur í ólympískum verði til fyrirmyndar og að sjálfsögðu viljum við sjá, þá sem stefna þangað, stíga sín fyrstu keppnis skref. Við vonumst til þess að auka starf Lyftingafélags Garðabæjar (LFG) og byggja upp grundvöll fyrir föstum æfingum félagsins innan veggja XY.”

bottom of page