top of page

"Að mæla og skrá niður árangurinn minn daglega skiptir ótrúlega miklu máli"

Enok byrjaði í CrossFit árið 2011 þegar hann skráði sig á Grunnnámskeið í Sporthúsinu og til gamans má geta að þjálfarinn á því Grunnnámskeiði var Árni Björn, stöðvarstjóri CrossFit XY. Hann náði strax góðum árangri og fékk mikið hrós fyrir en sjálfur fann hann aldrei fyrir miklum metnaði og vilja og var því nánast hættur að mæta eftir örfáa mánuði. Árið 2016 var svo gerð önnur tilraun. Enok dró vin sinn, Konna, með á Grunnnámskeið og að þessu sinni í CrossFit XY. Það var hinsvegar sömu söguna að segja og í fyrra skiptið, aldrei fann hann metnaðinn til að halda stöðugt áfram og tók við nokkuð slitrótt æfingatímabil. Fríin og pásurnar voru langar og viljinn, til að byrja aftur að mæta hverju sinni, lítill.


Það var svo um haustið 2018 sem að Enok var hugsað til rjúpnaveiðitímabilsins sem nálgaðist óðum. Hann var þá nýkominn úr langri ferð til Bandaríkjanna og hafði aldrei verið í eins slöku formi, að eigin sögn. Vigtin sagði rúm 150 kíló og Enok varð strax óviss um að hann hefði ekki þol né þrek til að geta tekið þátt í göngunni og líkamlega erfiðinu sem veiðinni fylgir. Hann ákvað þá að gera eitthvað í sínum málum og fyrsta skrefið var að nýta ræktina á vinnustaðnum, en á sama tíma varð óvænt breyting á mataræðinu hans.

Þegar ég kom frá Bandaríkjunum tók ég eftir því að grauturinn á morgnananna í vinnunni hafði verið ótrúlega misjafn allt í einu og mér fannst hann hreinlega ekki góður lengur. Ég horfði á rúnstykkin og Cheeriosið en vissi að hveiti og kolvetni væri ekki að fara að gera mér neitt gott. Ég fór þá bara í smá fýlu, tók kaffibollan minn einn morguninn, sleppti morgunmat og settist við skrifborðið og fór að vinna. Um hádegi fór ég svo að velta því fyrir mér að ég væri eiginlega ekki orðinn neitt rosalega svangur og varð hugsað til þess að mögulega gæti ég bara prófað að fasta, því ég hafði heyrt eitthvað um það. Síðan þá hef ég sleppt morgunmat alla daga og aldrei borðað eftir klukkan 8 á kvöldin. Mér hefur fundist þetta ótrúlega gott og verður til þess að ég vel mér hollari og næringaríkari máltíðir yfir daginn.

Eftir að hafa fundið árangur af átakinu síðustu vikurnar hugsaði hann sér að kannski væri kominn tími á að mæta í CrossFit aftur. Hann átti 2 mánuði eftir af kortinu sínu í október 2018, heyrði þá í Konna félaga sínum (sem virðist alltaf vera klár ef einhverjum þarna úti vantar æfingafélaga) og þeir mættu. Síðan þá hefur Enok náð að halda ótrúlegum dampi í mætingu, metnaði og löngun í að æfa og vinna að bættum lífstíl. Í dag er hann 96 kíló og hefur misst tæp 60 kíló af hreinum aukakílóum. Þetta er lygilegur árangur sem hann hefur náð og einungis með því að halda stöðugt áfram að æfa og borða óhollustu í hófi.

Fastan setur ákveðin ramma utan um mataræðið en þess utan er ég ekkert í því að setja mér einhver boð eða bönn. Ég veit alveg hvað er gott fyrir mig að borða og hvað er það ekki, þannig að ég borða þetta óholla í algjöru hófi en fyrst og fremst langar mig bara til að borða hreina og holla fæðu. Líkaminn kallar bara á gott eldsneyti þannig að ég fylli á hann eftir því. Það er eiginlega ótrúlegt að taka upp 20 kílóa lóðaskífur í dag og hugsa til þess að fyrir ekki svo löngu hengu tæpar 3 svoleiðis utan á mér.

Enok hefur tekið þátt í síðustu 2 Open undankeppnum CrossFit og segir sjálfur að hann upplifi sig sem mikla keppnismanneskju á æfingum, þrátt fyrir að vera það almennt ekki í daglegu lífi. Hann og vinnufélagi hans eru í smá innbyrgðis keppni yfir árið sem er svo gerð upp í árangri Open keppninnar. Þrátt fyrir að setja sér engin stór markmið um þyngdartap eða neinn ákveðinn endapunkt segir hann að það sem hvetur hann hvað mest áfram eru hreyfingarnar í CrossFit æfingakerfinu. Hann er stöðugt að stefna að því að ná nýjum hreyfingum og betri tækni á æfingum því það mun jú hjálpa honum í að ná forskoti á vinnufélagann (Ingvar þú veist að þú þarft að passa þig). Í dag er hann að glíma við að bæta tæknina sína í tær-í-slá og hann langar mjög að ná handstöðuarmbeygjum eins fljótt og hægt er. Eitt sem angrar Enok er að hafa ekki byrjað að mæla árangurinn fyrr.

Það er svo geggjað að sjá í dag hvað maður hefur bætt sig mikið, bara á síðasta árinu til dæmis. Maður áttar sig ekki alveg á því þegar maður byrjar að hreyfa sig og taka sig á að það skiptir máli að skrá niður tímana sína, árangurinn og lyfturnar því þessar litlu bætingar veita manni alveg hellings hvatningu.

Við erum svo stolt af Enok sem iðkanda, fyrirmynd og félaga innan stöðvarinnar og erum spennt að fylgjast með honum halda áfram vegferðinni sinni.

bottom of page