Í vikunni birtum við brot af frásögn úr viðtali okkar við Elmar Másson, meðlim CrossFit XY, á Instagram síðu stöðvarinnar. Saga Elmars, eða Emma, eins og maðurinn er gjarnan kallaður er hreint ótrúleg. Hún er það mikil hvatning að við settum okkur í samband við hann til að fara nánar yfir árangurinn hans síðustu ár. Til að setja hlutina eldsnöggt í samhengi áður en lengra er farið hefur Emmi farið úr því að vera 125 kg árið 2015 niður í 79 kg núna 3 árum seinna. Glöggir stærðfræðisnillingar sjá í fljótu bragði að það eru ein 46 kíló.

Saga Emma er eflaust svipuð og saga margra sem lenda í yfirþyngd. Yfir nokkurra ára tímabil missti hann stjórn á mataræðinu og hreyfing eða líkamsrækt varð smám saman að engri. Kvíði, félagsfælni og þunglyndi voru samhliða óheilbrigðum lífstíl orðið að afar þungu fargi að burðast með í daglegu lífi. Það var svo sumarið 2015 sem að ákveðnum botni var náð.
Það var þannig að ég var á leið í brúðkaup hjá einum af mínum bestu vinum. Ég hafði þá tekið fram jakkafötin mín en áttaði mig fljótlega á því að ég passaði ekki lengur í þau. Það var þá sem ég ákvað að fara að gera eitthvað í mínum málum. Nokkrum dögum síðar keypti ég mér hjól, einskonar "fitness hjól", stillti því upp heima og byrjaði að hjóla.
Elmar jók tímann sem hann eyddi á hjólinu hægt og rólega. Áður en langt var um liðið hafði hann misst 10 kg. Það var þá sem hann ákvað að skrá sig á Grunnnámskeið hjá félaga sínum í CrossFit XY, stöðvarstjóra og eigenda CrossFit XY, Árna Birni.
Elmar var byrjaður að æfa reglulega. Hann blandaði saman CrossFit æfingum og æfingum á hjólinu heima og fannst hann vera að ná árangri. Nú var tími til kominn að huga að mataræðinu.
Ég hafði mjög lengi ekki hugsað vel um mataræðið. Máltíðirnar voru allt of stórar og millimálin mörg. Ég ákvað að byrja á því að breyta litlu í einu. Morgunmaturinn var fyrstur. Ég hafði lengi bara borðað morgunkorn og þá ekki hollu týpuna, en skipti því algjörlega út fyrir hafragraut. Eftir smá tíma var það orðið að algjöri rútínu og ekkert erfitt. Því næst hugaði ég að hádegismatinum - og svo koll af kolli.
Í upphafi ferlisins hafði Elmar sett sér markmið um missa 40 kg. Því markmiði var náð jólin 2017. Í dag æfir hann CrossFit 5-6 sinnum í viku auk þess að henda sér ennþá stundum á hjólið heima. Spurður hvert aðal aðdráttaraflið við CrossFit æfingarnar hafi verið segir Emmi að það hafi án efa verið félagslegi hlutinn. Að mæta á æfingar til Árna og verða hluti af samfélagi CrossFit XY dreif hann áfram. Smám saman varð almenna líðan betri með hverjum deginum sem leið, göngutúrar voru ekki lengur erfið félagsleg áskorun og núna í sumar hjálpaði Elmar foreldrum sínum að flytja búslóðina án þess að blása úr nös. Eins ófrumleg en gagnleg og spurningin "Hvað myndir þú segja við einstakling sem nú í dag væri í þínum sporum árið 2015?" er, svaraði Elmar:
Ég myndi segja að þetta gerist ekki yfir nóttu, heldur í mörgum litlum skrefum. Maður breytir ekki öllu í einu eins og með mataræðið - frekar að breyta einni máltíð í einu en að ætla að hoppa út í algjöra umturnun. Sama með æfingar. Fyrir mig var erfiðast að hugsa mér að mæta í fjölmenna tíma oft í viku. Í staðinn valdi ég mér fámennstu tíma dagsins og byrjaði 1-2 æfingum á viku. Hægt og rólega jók ég æfingarnar í 3 á viku og svo framvegis. Ég er ekki með neitt sérstakt markmið í huga núna - ekkert plan nema bara að halda áfram á þessari braut.